Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 189. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 531  —  189. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi, nr. 16 14. apríl 2000, með síðari breytingum.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Stefán Eiríksson, Dís Sigurgeirsdóttur og Rögnu Árnadóttur frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Þá bárust umsagnir frá Landhelgisgæslu Íslands, Landssambandi lögreglumanna, lögreglustjóraembættinu í Reykjavík, embætti ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara, umboðsmanni barna, Persónuvernd, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Stéttarfélagi íslenskra félagsráðgjafa, Prestafélagi Íslands, Jafnréttisstofu, Umferðarstofu og Útlendingastofnun.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lagaákvæðum um upplýsingar sem má skrá um einstaklinga og hluti í Schengen-upplýsingakerfi íslenskra stjórnvalda, hverjum sé það heimilt og hve lengi megi varðveita slíkar upplýsingar. Þá er lagt til að lögfest verði heimild til skráningar sérstakra viðbótarupplýsinga vegna lögreglusamvinnu milli landa og hvenær eigi að eyða þeim upplýsingum og fleirum bætt í hóp þeirra sem hafa beinlínuaðgang að kerfinu. Loks er lagt til að ákvæði um eyðingu upplýsinga verði einfölduð og sérstök ákvæði sett um eyðingu viðbótarupplýsinga.
    Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu byggjast á fjórum gerðum Evrópusambandsins sem breyta Schengen-samningnum m.a. vegna baráttunnar gegn hryðjuverkum og vegna heimildar yfirvalda í aðildarríkjunum, er sjá um skráningu ökutækja, til aðgangs að ákveðnum upplýsingum úr kerfinu.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lagt til að kveðið verði skýrt á um það í 4. gr. frumvarpsins í hvaða skyni Umferðarstofu sé heimilt að nota aðganginn að upplýsingakerfinu, þ.e. til að kanna hvort ökutæki sem óskað er skráningar á hafi verið stolið, selt ólöglega eða horfið. Er það í samræmi við 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 2005/1160/EB um aðgang yfirvalda, sem bera ábyrgð á útgáfu skráningarskírteina, að ákveðnum upplýsingum úr kerfinu.
    Í öðru lagi leggur nefndin til breytingar á 5. gr. frumvarpsins, sem breytir 17. gr. laganna, þannig að hún verði í fullu samræmi við efni 12. mgr. 1. gr. ákvörðunar 2005/211/JHA. Sú grein breytir 113. gr. Schengen-samningsins og gerir ráð fyrir einföldun á reglum sem gilda um eyðingu upplýsinga úr kerfinu. Þær breytingar sem nefndin leggur til eru í samræmi við reglurnar og kveða annars vegar á um að upplýsingum um hluti sem skráðar eru á grundvelli 7. gr. laganna skuli eytt innan fimm ára frá skráningu. Sú breyting er enn fremur í samræmi við þá breytingu sem 2. gr. frumvarpsins felur í sér en þar er fleiri hlutum, svo sem bátum, skipum, loftförum og gámum, bætt við upptalningu ákvæðisins á því sem má skrá í upplýsingakerfið og orðalagið fært til samræmis við það.
    Hins vegar leggur nefndin til að öllum öðrum upplýsingum en skráðar eru á grundvelli 6. og 7. gr. laganna skuli eytt innan tíu ára frá skráningu. Þessar breytingar sem hér eru lagðar til breyta ekki þeim ákvæðum sem gilda um endurmat skráningar skv. 2. mgr. 17. gr. laganna né þeirri meginreglu að enginn hámarkstími gildi um geymslu skráðra upplýsinga um einstaklinga á grundvelli 6. og 7. gr. laganna.
    Nefndin ræddi nokkuð um þær breytingar sem lagðar eru til í 1. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins, en þar er bætt við tveimur nýjum skáningaratriðum, annars vegar að skrá megi hvort viðkomandi er vopnaður, ofbeldishneigður eða á flótta og hins vegar að stafi skráning af beiðni um að eftirlýstur maður verði handtekinn eða framseldur þá skuli skrá tegund brots. Í athugasemdum með greininni kemur fram að skrá skuli hvort viðkomandi sé á flótta undan réttvísinni. Nefndinni bárust athugasemdir þar sem því sjónarmiði var hreyft að taka þyrfti af tvímæli um að frumvarpið tæki ekki til flóttamanna. Nefndin telur ekki ástæðu til að gera efnislegar breytingar á frumvarpinu en áréttar þann skilning að hér sé ekki átt við flóttamenn, enda er það hugtak skýrt og afmarkað samkvæmt lögum um útlendinga og alþjóðlegum sáttmálum.
    Þá ræddi nefndin einnig um ákvæði 6. gr. frumvarpsins sem gerir ráð fyrir að heimilt sé að skrá viðbótarupplýsingar um einstaklinga og hluti sem verða til við upplýsingaskipti á grundvelli 9. gr. a laganna og er heimilt að veita þar til bærum yfirvöldum í öðru Schengen- ríki. Nefndin leggur áherslu á að upplýsingarnar verða að vera í samræmi við þann tilgang sem kerfinu er ætlað að ná yfir og að þær má einungis geyma í samræmi við tilgang skráningarinnar og aldrei lengur en í eitt ár.
    Þá telur nefndin rétt að taka fram vegna ábendinga sem borist hafa að í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins er a-liður 2. efnismgr. sagður vera í samræmi við áskilnað 4. mgr. 1. gr. ákvörðunar 2005/211. Það ákvæði felur í sér breytingu á 99. gr. Schengen-samningsins og er réttilega tilgreint sem grundvöllur undir 2. gr. frumvarpsins. Ákvæði a-liðar er hins vegar efnislega sambærilegt við a-lið 7. mgr. 1. gr. ákvörðunar 2005/211.
    Í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins er a-liður ákvæðisins sagður vera í samræmi við 8. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 871/2004 og 3. mgr. 1. gr. ákvörðunar nr. 2005/211. Þarna hafa tilvísanir víxlast, en grundvöllur þessa ákvæðis er 8. mgr. 1. gr. ákvörðunar nr. 2005/211 og 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 871/2004.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Björgvin G. Sigurðsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 6. des. 2005.



Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Ágúst Ólafur Ágústsson.



Birgir Ármannsson.


Kjartan Ólafsson.


Sigurjón Þórðarson.



Sigurður Kári Kristjánsson.


Guðrún Ögmundsdóttir.